Tölum um tölur

Tölum um tölur


Þegar menn eru að stíga sín fyrstu skref í heim vel klæddra herra, gæti komið á óvart hvað það er mikið af tölum í flestum flíkum, hvort sem er talað um buxur, vesti, jakka eða frakka. Tölurnar senda þau skilaboð að þú vitir hvað þú sért að gera og þekkir grundvallar reglur sem fylgja því að vera vel klæddur, eða ekki.

Jakkar 

Þegar kemur að jökkum er einföld regla sem hægt er að fylgja, hún er sem fylgir:

jakki með tvær tölur - efri tölu á að hneppa á meðan athöfn stendur og aldrei hneppa neðri.

jakki með þrjár tölur - stundum hneppa efstu, miðju við athafnir og aldrei neðstu.

eða 

2 tölur - alltaf, aldrei

og

3 tölur - stundum, alltaf, aldrei

Ef jakkinn er með eina tölu skal hneppa honum á meðan athöfn stendur.

Jökkum skal ekki hneppa þegar þú situr og hneppa skal frá (með einni hendi) áður en þú færð þér sæti.

 

En ef þú ert í vesti, hvað gerir þú þá?

Ef þú ert í vesti er ekki skylda að hneppa jakkanum en auðvitað ekki bannað né litið illa á það, en það er óþarfi.

 

Tvíhnepptir jakkar

Á tvíhnepptum jökkum (sjá mynd) liggja tvær raðir af tölum niður kviðinn sem geta ruglað suma í rýminu. Vinstri röðin er þó aðeins aðeins upp á útlitið að gera. Innan í jakkanum vinstra megin er tala sem hneppist en sést ekki, hún er til þess að halda jafnvægi í flíkinni svo hún halli ekki í aðra áttina, svo er yfirleitt ein tala hægra meginn sem þú hneppir. Oftast er hneppt efri tölunni ef það eru fleiri en tvær tölur en ítalinn hefur gert það móðins að hneppa neðri tölunni fyrir frjálslegra og afslappaðra útlit. Hægt er að fá tvíhneppta jakka með 6, 4 eða 2 tölum. fleiri en það er fyrir konungsfólk og formlegan herklæðnað.

Tvíhnepptum jökkum hneppir þú ekki frá þegar þú sest.

Grá tvíhneppt jakkaföt

  

Vesti

Menn klæðast nú sjaldnar og sjaldnar vestum en ef þú ákveður að gera það, er fínt að vera með á hreinu hneppi-reglurnar.

Ef þú ert í svokölluðu venjulegu vesti (en ekki tvíhnepptu, meira um það á eftir) hneppir þú öllum nema neðstu tölunni á vestinu en ef vestið er of stutt og það sést of mikið í skyrtuna eða bindið undir, er skárra að hneppa neðstu tölunni, það er mun snyrtilegra.

Tvíhneppt vesti

Annað en tvíhnepptir jakkar þá skal hneppa öllum tölum á tvíhnepptu vesti, tölunni að innan og öllum utan á.

 

Buxur

Innan í flestum jakkafatabuxum eru tölur og oftar en ekki eru tvær á buxnastrengnum. Það skal hneppa öllum tölum á strengnum en innan í buxunum er enginn skylda að hneppa og fyrir suma er þetta bara ein óþarfa tala til að hneppa frá til þess að komast á klósettið.

Í buxur er hægt að fá axlabanda tölur s.s. fyrir axlabönd. Þetta færðu reyndar  ekki út búð í dag og þess vegna sérðu menn ekki með axlabönd eða með axlabönd með klemmur, við mælum gegn því að nota slíkt. Fáðu einhvern til að sauma tölur í strenginn eða fáðu sérsaumaðar buxur með tölum fyrir axlabönd og splæstu í alvöru axlabönd, þú munt ekki sjá eftir því.

 

Skyrtur  

Þegar kemur að skyrtum ráða aðstæður málum, ef þú ert að fara út á lífið er enginn að bögga sig á efstu tveimur tölunum, neðar en það er hægt að rökræða. En ef þú ert á einhvers konar viðskipta samkomu t.d. sækja um starf á skrifstofu eða mikilvægri athöfn eins og jarðaför eða gifting er skylda og virðing að hneppa efstu tölunni og vera með viðeigandi bindi. Þetta sýnir að þú takir bæði aðstæðum og sjálfum þér nógu alvarlega til að A) kaupa skyrtu sem passar rétt og B) læra að binda bindishnút.

 

Frakkar

Frökkum skal hneppa eins og hentar og fylgja þeim engar reglur. Ef þér er heitt hneppir þú frá en ef veður er vont (eins og oft hérlendis) hneppir þú öllum tölum og sprettir í skjól.

 

 

Niðurstaða

Jakkar - Aldrei neðstu nema þú sért í jakka með eina tölu.

Tvíhnepptir jakkar - Töluna innan í jakkanum og eina utan á.

Vesti - Helst ekki neðstu nema sjáist of mikið í skyrtuna neðst.

Tvíhneppt vesti - Allar tölurnar, líka innan í vestinu.

Buxur - A.m.k. allar festingar á strengnum.

Skyrtur - Upp að háls við mikilvæg tilefni + bindi, annars frjálst.

Frakkar - Hvað sem hentar.

 

Skoðaðu ferlið á sérsaum eða lærðu meira um okkur

Aftur í Herramannaskóla greinar