Hvað er Jökull & Co.?

Félagið Jökull & Co. stofnuðum við Ísak Einar Ágústsson & Fróði Kjartan Rúnarsson vegna brennandi áhuga okkar á formlegum klæðnaði herramanna. Þó lentum við alltaf í því sama þegar við ætluðum að versla herrafatnað. Flestar verslanir hérlendis taka ekki tillit til allra líkamsbygginga. Sumar eiga nóg til í stærri stærðunum en aðrar aðallega með “slim fit” snið. Að finna föt sem passa á menn sem eru mitt á milli eða hafa fætur í báðum heimum t.d. herðabreiðir eða með þver læri miðað við mitti & kálfa (og svo mætti lengi telja) getur reynst nær ómögulegt og þar stígum við inn.

Innblástur

Við höfum báðir fylgst mikið með bestu klæðskera húsum í heimi og höfum þar að auki ferðast til London & Ítalíu, rætt við reynslubolta geirans og drukkið í okkur eins mikla þekkingu og við mögulega gátum. Við vildum gera okkar besta í að flytja inn svipaða þjónustu á verði sem hentar sem flestum, því að okkar mati á öllum að geta liðið vel í góðum jakkafötum.

Stofnun félagsins

Árið 2022 tókum við af skarið og stofnuðum við félag sem við myndum nefna Jökull & Co. Við félagarnir höllumst þó ekki alltaf að sama stíl en Fróði er meira í hinum afslappaða ítalska stíl á meðan Ísak sækir meira í hinn klassíska enska stíl. Ef þú kíkir til okkar í heimsókn færðu innsýn í báða heima og getum við leiðbeint þér nákvæmlega að því sem þú vilt. Eitt kunnum við þó báðir að meta en það eru gæði, hefðir & fallegt handverk.

Jökull & Co.

Flíkurnar okkar

Ekki svo smá-atriði

Þegar félagið var stofnað tókum við þá ákvörðun að frá okkur kæmu einungis fagmannleg föt sem myndu þó leyfa persónuleika hvers manns að skína og veita honum sjálfstraust. Hjá okkur geta einstaklingar því ráðið næstum því hverju einasta smáatriði sem sameinast í eina heild og gera hver jakkaföt einstök. Allar þær útfærslur sem við bjóðum upp á hafa staðist tímans tönn hvort sem talað er um boðungana, mismunandi vasaútfærslur, festingar á buxur og svo mætti áfram telja.

Samræmi í mynstrum

Ef skoðað er mynstraðar flíkur frá Jökli & Co. vandlega, má sjá hversu mikil vinna er lögð í það að halda flæði mynstursins á vösum, ermum, kraga, o.s.frv. Þetta dempar flíkina og gleður augað án þess að maður taki endilega eftir en hefur þó mikil áhrif á heildarmyndina. Samræmi í mynstrum er eitthvað sem sést aðeins á vönduðum flíkum eins og má sjá á fötum í hæsta gæðaflokki.

Handsaumað blómagat

Handsaumað blómagat er það atriði sem eldri kynslóðir munu kunna að meta hvað mest. Hjá okkur er hægt að fá blómagatið í tveimur stílum, enskum og ítölskum. Við bjóðum einnig handsaum á hnappagötin á ermum jakkana og þá gefst líka tækifæri að velja lit saumsins.

Púði eða ekki púði?

Jökull & Co. býður mönnum að velja hvort þeir hafi axlarpúða í jakkanum enda er margur maðurinn sem forðast axlarpúða eins og sótt. Við viljum þó færa rök fyrir því að axlarpúðar eru alls ekki eins slæmir og menn halda enda eiga líklega flestir menn jakka með púðum án þess að átta sig á því. Axlarpúðar geta verið mjög góð lausn fyrir marga ef þeir vilja fá skarpara eða formlegra útlit. Ef menn vilja aftur á móti léttara og náttúrulegra útlit er ekkert mál að sleppa þeim. Þá má líka nefna að axlarpúðar eru yfirleitt ósýnilegir nema þeir séu illa gerðir eða jakkinn passi ekki.