Skart fyrir herramenn - Úrið

Skart fyrir herramenn - Úrið

Klukkan hefur í einhverju formi verið hluti af mannkynssögunni í aldaraðir. Það var þó ekki fyrr en eftir heimsstyrjaldirnar tvær að menn byrjuðu að ganga með litla klukku á úlnliðnum á sér á degi hverjum.

Út frá því þróaðist sölumarkaður og með honum samfélag sem kunni að meta fínt og fallegt handverk. Ef það er eitthvað sem herramenn elska þá er það vara sem er bæði nothæf og falleg, en þess vegna varð úrið, að einhverju leyti, ákveðið stöðutákn.



Úr, hvort sem það er á úlnliðinn eða í vasann, er flottur og nytsamlegur skartgripur sem getur dregið saman heildarútlit hjá mönnum. 

Peter heinlen, fyrsti úrsmiðurinn

Saga úrsins (gróflega)

Þjóðverjinn Peter Henlein, árið 1505, náði að minnka innihald klukkunnar nógu mikið til þess að hún yrði ferðahæf. Líkt og í dag hafði ríka fólkið gaman af því að monta sig á auðæfi sínu með því að hengja þessi fyrstu úr á sig eða setja þau utan um hálsinn á sér. Grunnurinn sem Peter Henlein lagði þróaðist þar til Karl II, Bretakonungur, byrjaði að setja úr í vestin sín. Þannig varð úrið að stöðutákni um alla Evrópu.


Í dag er úrið er án efa vinsælasti skartgripurinn hjá karlmönnum, en þó var á tímabili talið dónalegt að ganga með úr og sérstaklega að líta á það í kringum aðra. Með því að klæðast úri gafst þú í skyn þú hefðir mikilvægari hlutum að sinna en manneskjunni sem þú varst að umgangast. Það breyttist eftir stríðið mikla, þegar hermenn tóku úrin með sér heim og gengu með þau vegna hentugleika. 


Sturluð staðreynd, litli vasinn innan á stóra gallabuxnavasanum hægra megin var upprunalega gerður til þess að geyma vasaúr.


Reglur

Fyrir hið allra formlegasta útlit er sniðugast að sniðganga úr, þar sem þau eru í raun og veru ekki talin „fín“, þó það sé reyndar að breytast með ári hverju. Eins og áður kom fram voru úr talin dónaleg en vegna hentugleika stimpluðu þau sig inn hjá samfélaginu. Fyrirtæki nýttu sér það og byrjuðu að markaðssetja úr sem lúxusvöru sem allir menn ættu að eiga.


Ef þú ert í formlegum aðstæðum og/eða klæðnaði, er mælt með að úrið sé hógvært og snyrtilegt.


Meginreglan sem fylgir því að ganga með úr er sú að málmurinn skal vera í samræmi við fatnað þinn, t.d. ermahnappa eða beltissylgjur. Ef við á, skal leðurólin vera í samræmi við aðrar leðurvörur í fatnaði þínum t.d. skó eða belti.

Ef þú sækist í formlegt útlit mælum við sterklega með því að geyma snjall- eða íþróttaúrið heima. 



 

Vasaúrið

Vasaúrið er sígildur aukahlutur sem fleiri menn ættu að fjárfesta í. Vasaúr í formlegum klæðnaði eru oftast notuð með vestum. Þau eru yfirleitt gyllt eða silfurlituð og annað hvort skreytt með útskurði eða flöt. Einnig er hægt að skreyta úrið með áletrun.

 

 

Keðjan

Keðjan á vasaúrum er þar sem flestir menn misstíga sig. Endinn á keðju sem gerð er fyrir vesti hefur litla 4cm slá á endanum sem kölluð er “T-bar” á ensku vegna formsins. Þessi endi fæst ekki út í búð hérlendis og þarf að vera keyptur á netinu eða erlendis.

Á flestum vasaúrakeðjum sem keyptar eru í dag fylgir hringur sem hægt er að opna og festa utan um mjóa hluti. Þessi endi var upprunalega gerður til þess að festa við beltislykkju á gallabuxum á meðan úrið sat í litla vasanum. Þetta átti að passa það að úrið félli ekki í jörðina á meðan maðurinn vann við blákraga vinnu.

Ef þú vilt fara rétt að, nálgast þú T-sláar keðju og skiptir út endanum. T-sláin er síðan þrædd í gegnum hnappagatið fyrir ofan vasann sem úrið situr í.


Einnig er hægt að fá keðjur með nisti eða skrauti og jafnvel tvöfaldar keðjur sem fara í vasana sitthvoru megin á vestinu. Það mætti segja að þessar skrautlegu keðjur væru fyrir lengra komna þar sem útlitið getur orðið “búningalegt” ef notað er of mikið af glingri við. Á tvöfaldar keðjur er oft sett vasaúr öðru megin og vindlaklippur eða lykla á hinn endann.


Niðurstaða

  • Vinsælasti skartgripurinn fyrir menn
  • Ekki vera með úr við mikilvægar athafnir þar sem þú þarft ekki að vita tímann.
    • Þetta á við um jarðarfarir eða viðskiptafundi, enda getur úr gefið það í skyn að þú þurfir að vera annars staðar.
  • Úrið þarf að vera í samræmi við aðra aukahluti fatanna, þ.e.a.s. málma og leður, ef á við.
  • Hógværð er lykilatriði, hvort sem talað er um armbandsúr eða vasaúr.
Aftur í Herramannaskóla greinar